Elon Musk nefndi í viðtali við Joe Rogan að við, mannkynið, værum nú orðin hálf vélmenni. Ástæðan er sú að við förum ekkert án þess að vera með raftæki við hendina.

Við notum raftæki til þess að eiga samskipti við aðra, kaupa hluti, rata á rétta staði og þannig mætti áfram lengi telja. Það sem okkur hjá Studyhax finnst vera mikilvægast er að við lærum líka nýja hluti í gegnum þessi sömu tæki.

Ég er sammála Elon Musk og ég tel einnig að í stað þess að vera að argast út í þá staðreynd að nemendur séu sífellt með símann og/eða tölvuna við höndina, að þá eigum við að mæta nemendum þar.

Nemendur eru með notkun sinni á raftækjum búnir að taka fyrir okkur ákvörðunina hvernig á að kenna þeim. Nemendur vilja auka þekkingu sína í gegnum þessa miðla. Við eigum að koma þekkingu til skila í gegnum þessi raftæki með áhugaverðu efni í stað þess að láta nemendur lesa 40 ára gamlar danskar kennslubækur.

Okkar markmið er að framleiða hágæða myndbönd þannig að nemendur nútímans geti fræðst um áhugaverð efni á hátt sem þeim líkar.

Við eigum að aðlaga okkur að þörfum nútíma nemenda, ekki öfugt. Nemendur eru ekki í skólunum fyrir skólakerfið, skólakerfið er fyrir nemendur.